Næsta hlaup verður haldið 10. ágúst eftir :
0
Daga/Days
0
Klst./Hours
0
Mínútur/Minutes
0
Sekúndur/Sec
Helstu Upplýsingar
Í Jökulsárhlaupinu er hægt að velja um þrjár vegalengdir: 32,7 km, 21,2 km og 13 km. Lengsta leiðin byrjar við Dettifoss. Millivegalengdin leggur af stað frá Hólmatungum og stysti leggurinn byrjar við Hljóðakletta. Öll hlaupin enda í Ásbyrgi.
Ræst er í hlaupin á mismunandi tíma. Dettifoss hlauparar fara af stað kl. 11:00, frá Hólmatungum er ræst kl. 12:00 og frá Hljóðaklettum fara hlauparar af stað kl. 13:30. Þetta er gert til þess að sem flestir hlauparar komi í mark á svipuðum tíma en einnig til að nýta rútuferðir á rásstaði.
Tímatöku verður hætt kl. 16:00 og þeir hlauparar sem koma í mark eftir það teljast ekki hafa lokið hlaupinu. Verðlaunaafhending fer fram kl. 15:30.
Það eru 5 drykkjarstöðvar á leiðinni frá Dettifoss, 4 drykkjarstöðvar frá Hólmatungum og 3 frá Hljóðaklettum. Hlauparar sem fara frá Dettifossi og Hólmatungum eru hvattir til að hafa með sér drykkjarbelti þar sem langt er á milli drykkjarstöðva efst. Í marki er svo boðið upp á vatn, orkudrykki, gosdrykki, hleðslu, ávexti og súkkulaði.
Á hlaupadaginn þurfa þátttakendur að mæta í Gljúfrastofu, gestastofu þjóðgarðsins í mynni Ásbyrgis, til að fá hlaupanúmer. Tímasetning mætingar er mismunandi eftir hlaupavegalengd
Hlauparar eru vinsamlegast beðnir að virða tímamörkin og vera mættir tímanlega. Hægt er að skipta um föt á salernum í kjallara Gljúfrastofu.
Hlaupaleið | Mæting í Gljúfrastofu | Brottför rútu | Hlaupið byrjar kl. |
---|---|---|---|
Dettifoss - Ásbyrgi | 08:00 | 09.30 | 11.00 |
Hólmatungur - Ásbyrgi | 09.30 | 10.30 | 12.00 |
Hljóðaklettar - Ásbyrgi | 11.00 | 12.15 | 13.00 |
Farið er á rútum að rásmarki á stöðunum þremur (Dettifoss, Hólmatungur, Hljóðaklettar). Aðstæður við rásmark eru mismunandi en gert er ráð fyrir að eftir rútuferðina hafi hlauparar einhverja stund (10-20 mín.) til að liðka sig fyrir hlaupið. Engin búningsaðstaða er við rásmörk og þar eru ekki vatnssalerni, aðeins þurrsalerni.
Þátttakendur geta skilið eftir merkta poka með hlífðarfötum oþh. í rútunni og nálgast þá við markið í Ásbyrgi að hlaupi loknu. Ekki er tekin ábyrgð á verðmætum í þessum pokum.
Hlauparar eru vinsamlegast beðnir um að fara ekki á einkabílum að rásmarki. Bílastæðin á hverjum stað eru ekki stór og nauðsynlegt er að rúturnar sem flytja hlaupara geti komist greiðlega til og frá rásmarki.

Nýjustu upplýsingar og myndir úr hlaupinu er hægt að nálgast á facebook síðu hlaupsins
Kort af leiðinni
